Ég vildi....

Ég gekk í Borgarahreyfinguna á sínum tíma af því að ég vildi berjast gegn þeirri spillingu sem tröllreið íslensku þjóðfélagi.  Ég vildi sjá ný og heiðarleg vinnubrögð, gagnsæi og ábyrgð. Ég vildi leggja lóð mitt á vogarskálarnar til að þeir sem komu okkur í þessa stöðu yrðu dregnir til ábyrgðar. Ég vildi leiðréttingu lána fyrir heimilin í landinu. Ég vildi aðgerðir til bjargar þjóðinni. Ég vildi... ég vildi...

Ég vil þetta allt enn. Ekkert hefur breyst, ekkert verið gert! 

Um leið og þingið hafði afgreitt Iceslave var skellt í lás og skundað í frí.  Auðvitað á starfsfólk þingsins rétt á fríi, en gleymdist ekki eitthvað?  Hvað með almenning í landinu sem berst við að halda sér á floti?  Hvað með lánin sem eru að sliga heimilin? Hvað með allar leiðréttingar almenningi til handa? Spyr sá sem ekki veit. 

Nú er næstum ár liðið frá hruninu og frá mínum bæjardyrum séð hefur þeim einum verið komið til aðstoðar sem ekki þurfa þess, þ.e. þeim sem enn liggja á gildum sjóðum.  Við sem voguðum okkur að kaupa okkur þak yfir höfuðið, til að tryggja okkur húsaskjól, við eigum að blæða. Við sem áttum okkar "sparifé" í húseignum okkar, við eigum að bera tapið. Það á ekki að vernda þetta sparifé á neinn hátt.

Ég vil fá það rökstutt frá ríkisvaldinu, hver munurinn er á þessu sparifé.  Af hverju er sparifé á innlánareikningum bjargað, en sparifé í húseign látið fara? Ég get ekki séð að hér sitji allir við sama borð.  Engin jafnræðisregla í gangi hér.

Ég er kannski bara svona vitlaus.  Ég fór íslensku leiðina og notaði mitt sparifé í að kaupa mér húsnæði. Reyndar var ekki margt annað í stöðunni.  Ég vildi tryggja það að börnin mín þyrftu ekki að vera alltaf að flytja, skipta um skóla, yfirgefa vini osfrv. Það var nefnilega raunveruleikinn á leigumarkað. Og er enn!

Hvað ætla stjórnvöld að gera þegar allar þær fjölskyldur sem nú standa frammi fyrir því að missa húsnæðið sitt, eru komnar á götuna?  Dettur einhverjum í hug að bankarnir muni "leyfa" fólki að búa í húsnæðinu sem þeir eignast á þennan máta fyrir einhverja smápeninga? Nei, þeir munu leigja út þetta húsnæði á okurverði, því að þeir verða jú að passa upp á "fjárfestinguna" sína. Með öðrum orðum "vernda lánasafnið".

Nei ég er búin að fá nóg af þessu ástandi.  Eitthvað þarf að gera og það strax!  Við þurfum leiðréttingu á vísitölunni og í framhaldi af því afnám verðtryggingar. Annars verður ekki búandi í þessu landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Við erum víst í þessari sömu stöðu. Nema ég skulda ekki húsnæðislán, mér bara datt ekki til hugar að fara út í fasteignakaup eins og brjálæðið var.

Það er alveg hárrétt hjá þér að fjöldi fólks er búinn að leggja allt sitt sparifé í steypu og hefur hér með tapað því öllu og stefnir þar að auki í gjaldþrot.

Hver er munurinn á því sparifé og því sem var bönkunum. Spariféð í bönkunum hvarf vissulega algjörlega en steypan er enn á sínum stað. Lánveitendurnir eru á fullu að koma höndum yfir fasteignirnar líka, þá verður ekkert eftir.

Móðir mín er eina manneskjan sem ég veit um sem er nokkuð heppin að eiga sitt hús skuldlaust komin að starfslokum í lífinu. Kannski mun hún eiga sumarhús á íslandi þar sem enginn vill búa.

30.000 fjölskyldur eru á leiðinni á götuna og nærri helmingur allra fasteigna verður minna virði en skuldin sem á þeim hvílir fljótlega. Þetta er ekki fögur sýn.

Það er reyndar ekki furða að Hagsmunasamtök heimilanna virðast hafa ótrúlega mikinn meðbyr þessa dagana, með greiðsluverkfallið.

Ég hafði þá von að mögulegt væri að reisa skárra samfélag úr rústum þess sem var en kannski er samfélagið bara ekki alveg hrunið ennþá. Það hefur of lítið breyst. En er það ekki okkar að breyta því?

Baldvin Björgvinsson, 1.9.2009 kl. 15:35

2 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Baldvin, spariféð í bönkunum var tryggt og neyðarlög sett til að allir fengju allt sitt til baka, ekki bara 3.000.000 eins og tryggingin hljóðaði upp á.  Að vísu töpuðu margir stórum hluta þess fés sem geymt var í peningamarkaðssjóðum, en ekki öllu.  Þarna finnst mér óréttlætið liggja. Tek það fram að ég tapaði líka á peningamarkaðssjóði og einnig tapaði ég öllum mínum hlutabréfum.  Ég er ekki að fara fram á að það tap verði bætt, enda tók ég áhættu sem hluthafi í þeim fyrirtækjum sem ég átti hluti í. Ég samþykkti hins vegar aldrei að leggja heimili fjölskyldunnar undir í þessum hildarleik.

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 1.9.2009 kl. 15:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband