Þjóðin á þing

Borgarahreyfingin var stofnuð af fólki með hugsjónir og væntingar um að koma á lýðræðislegum umbótum, réttlátara samfélagi með gagnsæjum vinnubrögðum og umfram allt, heiðarleika að leiðarljósi

Slagorðið “þjóðin á þing” er engin tilviljun. Það var valið vegna þess að vildum að þjóðin fengi rödd inni á Alþingi Íslendinga. Þinghópur hreyfingarinnar var hugsaður sem brú frá grasrótinni þangað inn.

Að okkar mati hefur það mistekist.
Þess í stað hafa hugsjónir, stefna og kraftur hreyfingarinnar týnst í deilum og óánægju á alla kanta.

Við sem undir þetta ritum erum stolt af Borgarahreyfingunni eins og hún var hugsuð. Í stað þess að gefast upp fyrir þeim mistökum sem gerð hafa verið langar okkur að leggja okkar að mörkum til að hreyfingin finni uppruna sinn á ný og að vegur hennar verði sem mestur.

Þess vegna ætlum við að bjóða fram krafta okkar til stjórnar Borgarahreyfingarinnar.

Við komum fram sem hópur og gerum okkur vonir um að fá stuðning sem slíkur.
Engu að síður bjóðum við okkur hvert og eitt fram til starfsins sem einstaklingar.

Sem hópur höfum við sett saman grunn að stefnu þeirri sem við munum fylgja í störfum okkar og hana má skoða í tengdri skrá.

Við munum kynna stefnuna nánar á næstu dögum og á landsfundi hreyfingarinnar.

Ásthildur Jónsdóttir, Bjarki Hilmarsson, Björg Sigurðardóttir, Guðmundur Andri Skúlason, Gunnar Gunnarsson, Gunnar Sigurðsson, Heiða B. Heiðarsdóttir, Ingifríður Ragna Skúladóttir, Jón Kr. Arnarson, Lilja Skaftadóttir, Sigurður Hr. Sigurðsson og Valgeir Skagfjörð


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Finnbogason

Jahér, ég hafði ekkert heyrt af þessu, er þetta Gunnars-armurinn að gera uppreisn :)

Sævar Finnbogason, 3.9.2009 kl. 16:31

2 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Engin uppreins Sævar minn.  Bara fólk sem er sammála og vill vinna saman. Förum eftir sannfæringu okkar :)

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 3.9.2009 kl. 17:05

3 Smámynd: Sævar Finnbogason

Lokaður hópur eða geta allir verið með?

Sævar Finnbogason, 3.9.2009 kl. 17:55

4 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Það geta allir félagsmenn boðið sig fram til stjórnar og við erum tilbúin til að vinna með öllum sem bera hag hreyfingarinnar fyrir brjósti :)

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 3.9.2009 kl. 18:03

5 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Samkvæmt þessu skipuriti er verið að kalla fram nýja Samfylkingu. Þingmenn skulu samhljóða og lúta vilja stjórnar. Það er ekki lýðræði. Þingmaður sem fer eftir eigin sannfæringu eins og sagt er til um í stjórnarskrá - það er eina leiðin til lýðræðis. Því miður eru þeir bara oftar en ekki beygðir undir sinn flokk.

Ég kaus ekki BH - en ég var stolt af því að þar þorðu þingmenn að framfylgja sinni sannfærinu, ólíkt hinum flokkunum. Það fannst mér vera þjóðin.

Ég hélt það ætti að bjarga hreyfingunni - ekki stúta henni endanlega!

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 3.9.2009 kl. 20:30

6 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Hvernig færðu það út Lísa?  Þetta skipurit sýnir að stjórn eigi að "halda utan um" hreyfinguna, þar með talið þinghóp.

Varðandi sannfæringu þingmanna þá hef ég alltaf talið að fólk gengi í þær stjórnmálahreyfingar sem hefðu stefnuskrá sem færu saman við sannfæringu þeirra. Ef svo er ekki, þá hlýtur viðkomandi að vera í félagi á fölskum forsendum.

Auðvitað geta þingmenn skipt um skoðun, en þá tel ég að þeim beri að útskýra sitt mál og leggja fram þær upplýsingar sem urðu til sinnaskiptana á fundi með sínum félagsmönnum.  Öðru vísi erum við komin inn í "þingmannaræði".

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 4.9.2009 kl. 09:55

7 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Man ekki betur en þeir hafi einmitt útskýrt mál sitt - veit ekki um vettvanginn. Punkturinn er - þau kusu með því að þjóðin hefði atkvæðisrétt í lokin - eins og loforðið kvað á um. Hvort loforðið var rétthærra?

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 4.9.2009 kl. 15:57

8 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Það var ekki hvernig þau kusu sem sett var út á, heldur þau vinnubrögð sem voru viðhöfð.  Einmitt það sem við vorum að berjast gegn, hrossakaup og kúgun.  Þau höfðu heldur ekkert samráð við hreyfinguna fyrir gjörninginn, en merkilegt nokk þá upplýstu þau formenn 4.flokksins um gjörninginn fyrirfram, en formaður stjórnar Borgarahreyfingarinnar fékk ekki einu sinni sms hvað þá annað.

Og svo ef við eigum að ræða sannfæringu, þá sagði Þór Saari eftir atkvæðagreiðsluna, að hann hefði kosið gegn sannfæringu sinni!

Hægt hefði verið að draga úr eftirköstunum eftir þetta, ef þau hefðu viðurkennt mistök og beðist afsökunar á þeim, en þannig fór nú ekki því miður.

Ég tek það fram, að ég hafði fram að þessu verið yfir mig ánægð með frammistöðu þeirra á þinginu.

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 4.9.2009 kl. 16:25

9 Smámynd: Ásthildur Jónsdóttir

Mér finnst ánægjulegt hvað Lísa Björk er áhugasöm um Borgarahreyfinguna þó ég telji mig hafa séð einhvers staðar að hún hafi ekki kosið hana.  Það er líka fínt að fá spurningar um framtíðarskipulag.

Samþykktirnar um nýjar vinnureglur sem kynntar eru á síðu hreyfingarinnar eru ekki frá okkur tólfmenningunum sem bjóðum fram saman heldur vinna grasrótarinnar og margt gott í þeim að finna.  M.a. skipulagðir reglulegir fundir grasrótar, þinghóps og stjórnar.

Á glærunum sem við settum fram með tilkynningunni er svo hægt að sjá hvernig við viljum vinna útfrá þessum samþykktum sem vonandi fara í gegn á landsfundinum 12. október þó eflaust verði einhverjar breytingar.

Við þurfum hreinskilna umræðu og lýðræðislegri vinnubrögð en hafa verið stunduð í Borgarahreyfingunni. 

Ásthildur Jónsdóttir, 4.9.2009 kl. 16:39

10 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Það hefur komið skýrt fram að það sem ykkur í stjórn finnst mikilvægast að láta hlýða ykkur eða ellegar biðjast afsökunar. Það einmitt gerir hana óhæfa til samstarfs að mínu mati. Þið einfaldlega lítið of hátt á ykkur. Hafa þingmenn sem eru á kafi í þingstarfi og alls kyns nefndum alltaf tíma til að koma á fund og spyrja hreyfinguna vinsamlegast hvort sé í lagi að gera þetta svona eða hinsegin!

Segðu mér - hver á að ráða? Þingmaður ákveður að hans afstaða sé "þessi" hann þarf þá að senda "hreyfingunni" sms og athuga hvort afstaða hans/hennar er leyfileg..........

Ég átta mig ekki á því hvernig þið getið EKKI séð hvað þetta er hallærislegt.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 4.9.2009 kl. 16:39

11 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Æji, veistu þú ákveður að misskilja allt sem sagt er og það verður bara að vera þannig.

Ég sagði aldrei að þingmenn hefðu átt að biðja stjórn afsökunar, þau áttu að tala við grasrótina.

Og finnst þér í alvöru ekkert að því að allir aðrir flokkar viti betur hvað þingmenn BH eru að aðhafast heldur en félagsmenn Borgarahreyfingarinnar?  Það kalla ég amk ekki lýðræði.

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 4.9.2009 kl. 17:19

12 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Hver nákvæmlega er skilgreiningin á "grasrótinni" svo ég sé með það á hreinu? Hvernig er hægt að ná sambandi við hana? Á að senda henni sms líka?

Nei - ég ákveð ekki að misskilja allt sem sagt er. Ég er að reyna að fá skýr svör frá ykkur, en það gengur illa. Hvernig útskýrið þið boðleiðirnar í skipuritinu? Það er ekki sett fram á hefðbundinn hátt og gæti miskilist. Hvar er valdið í raun? Er stjórnin í beinu sambandi við grasrót og yfir þingflokknum eins og lítur út fyrir að vera? Dagskrá alþingis er oft æði stíf. Hvað þarf þingflokkurinn að sitja oft fundi með stjórn? En grasrót? Hver ákveður hvernig atkvæði þingmanna eiga að falla? Eru það þingmenn sjálfir?

Annað - afhverju bjóðið þið 12 saman í stjórn, sem mér skilst sé einstaklings framboð hvers og eins? Af hverju bíðið þið ekki þar til allir frambjóðendur hafa skráð sig?

Þetta er góð byrjun á hreinskilinni umræðu.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 4.9.2009 kl. 19:02

13 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Grasrótin, Lísa mín, eru almennir félagsmenn BH.  Þú nærð sambandi við hana með því að mæta á félagsfundi, sem hafa verið haldnir reglulega 1. og 3. fimmtudag í mánuði í allt sumar.

Það er margbúið að svara þér í sambandi við skipulag á öðrum bloggum.  Það á að leggja fram tillögur að samþykktum á landsfundinum.  Hingað til höfum við ekki haft neinar skýrar reglur né boðleiðir og það er partur af vandamálinu.

Þingflokkurinn þarf ekki að sitja fundi frekar en hann vill.  Þau eru boðin á alla stjórnarfundi og hafa verið í allt sumar.  Fulltrúar stjórnar hafa líka setið þingflokksfundi endrum og eins, en eins og þú kemur inn á hefur dagskrá Alþingis verið ansi stíf í sumar og þingflokksfundir riðlast til.

Það er ætlast til að þingflokkur sitji félagsfundi ef þau geta, enda er það eina leiðin til að halda sambandi við grasrótina.

Þingmenn ákveða sjálfir hvernig þeir greiða atkvæði, en æskilegt er að það sé í samræmi við stefnu hreyfingarinnar og ef þau búa yfir einhverjum upplýsingum sem gera það að verkum að þau greiði atkvæði á annan hátt, þá er æskilegt að þau geri grein fyrir því (og skýri hvers vegna) áður en það er gert.

Við bjóðum okkur fram sem einstaklingar, en með sameiginleg markmið og viljum því gjarnan fá stuðning sem hópur.  Ef fyrir okkur hefði vakað það eitt að ná völdum í stjórn, þá hefðum við takmarkað hópinn til að atkvæða dreifing yrði ekki of mikil. Basic tölfræði.

Af hverju eigum við að bíða? Það hafði enginn tilkynnt framboð þegar við fórum fram, en er það ástæða fyrir okkur að bíða?  Okkur fannst heiðarlegra að koma fram sem fyrst og vinna okkur fylgi fyrir opnum tjöldum.

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 4.9.2009 kl. 21:38

14 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Takk fyrir þetta Inga. Gott að fá loksins málefnaleg svör. Reyndar hef ég ekki fengið útskýringar á skipuritinu á öðrum bloggsíðum - þessu sem þið eruð að kynna. Veit að það voru engar skýrar boðleiðir fyrir.

Samkvæmt þessu svari hefði aldrei átt að koma upp neinn ágreiningur með vinnu flokksins í sumar. Og því engin ástæða til afsökunarbeiðni þó svo ekki hafi náðst að sækja félagsfund með grasrót fyrir ákvörðun þá sem var tekin. Þetta er allt annar tónn heldur en hefur verið í fyrri færslum bæði þínum og annarra.

Er það rétt til getið hjá mér að kannski komi ca 30 - 50 almennir félagsmenn á fundi svona almennt? Ef það er rétt þá er það auðvitað brotabrot af þeim sem kusu flokkinn/þingmennina og höfðu trú á þessari sýn. Hinir 13950 kvörtuðu þá ekki yfir frammistöðu flokksins í þessu máli sem setti allt á hvolf. Það ætti ekki að gleyma því að sá hluti sem er ánægður hefur yfirleitt ekki eins hátt og þeir sem eru ósáttir og vilja ná sínu fram - hvernig svo sem þeir geta.

Svona fór þetta nú í sumar og hluti þeirra sem býður sig fram til stjórnar í þessum hóp, var hluti af þessu ósætti. Misháværir en engu að síður hluti. Grasrótin er væntanlega sú sama - sömu félagar virkir á fundum. Þingflokkurinn er sá sami. 

Af hverju ætti þetta að verða allt gott og betra núna? Hvað hefur breyst?

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 4.9.2009 kl. 22:03

15 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Meðlimir BH eru ca 620 og að fá 30-50 manns á fundi af þeim fjölda telst harla gott :)  Mér skilst af mér fróðari mönnum að 4.flokkarnir fái jafnvel minna á sína fundi.

Það eru breytingar væntanlegar, ef tillögurnar frá samþykktahópnum verða samþykktar.  Ef ekki, þá erum við væntanlega enn í sama farinu. Hvað verður þá veit ég ekki.  Hitt veit ég, að mér er ekki sama um þessa hreyfingu. Hún gaf mér von um að hægt væri að hafa áhrif og ég vil ekki sleppa takinu af þeirri von.  Því eins og þú væntanlega veist, þá er lítið eftir ef vonin er farin.

Persónulega finnst mér Borgarahreyfingin vera eina von almennings í landinu. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að ekki eru allir sammála mér í þeirri skoðun minni. 

Ég hef horft á þessa hreyfingu sem mér þykir óendanlega vænt um, ganga í gegn um erfiða tíma, en ég vil leggja mitt af mörkum til að hún nái að verða það afl sem ég bar vonir til að hún yrði.  Ég sækist ekki eftir völdum, enda engin að hafa innan þessarar litlu hreyfingar.  Það eina sem ég sækist eftir er að þessi hugsjón haldi lífi.

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 4.9.2009 kl. 22:19

16 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Ef ykkur er svona annt um hugsjónina og viljið halda lífi í henni, þá ættuð þið kannski að horfa fram á veginn. Átta ykkur á því að hvað svo sem þið segið núna og hvernig svo sem breytingartillögurnar fara, þá er stór hluti þessa hóps ennþá þeir aðilar sem gerðuð lítið úr verkum þingmanna ykkar, lýstuð vantrú á þá og ásökuðuð einn þeirra fyrir illan vilja og fordóma.  Það breytir því ekkert.

Þessi hópur ætti því - í þeirri von að láta hugsjónina lifa - víkja fyrir fólki sem ekki hefur þetta orðspor í rassvasanum. Sem ekki er þekkt fyrir að svífast einskis og koma fram við þjóðkjörna þingmenn með svívirðingum og látum. Þetta vantraust sem kom frá þessum hóp - hefur litað skoðanir margra í garð hreyfingarinnar. Ef þið viljið byggja hana upp þá er vert að hafa þetta í huga.

Þó svo meðlimir séu 650 - þá voru 14000 manns sem kusu BH. Sumir vegna þingmannanna, aðrir vegna hreyfingarinnar eða bæði. Flestar útstrikanir fékk þó Þráinn, ekki satt.

Þessir 14000 eiga rétt á því að halda í sína von um að þingflokkur BH haldi áfram sínu góða starfi og að hreyfingin sýni þeim það traust sem þeir eiga skilið. Sú staða getur engan vegin skapast meðan fólkið sem úthrópuðu þá eru ennþá í stjórn.

Það segir sig sjálft.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 5.9.2009 kl. 00:01

17 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Lísa.  Áttaðu þig á því að fylgi Borgarahreyfingarinnar er að hrynja og þingmenn rúin trausti innan og utan þings.  Þess vegna virkar þessi athugasemd þín hálf hjákátlega.  Ef kosið væri nú þá er hæpið að hreyfingin komi yfir höfuð einhverjum þingmanni að.

Við viljum einfaldlega reyna að endurheimta traustið og reisa hreyfinguna upp úr rústunum vegna þess að okkur finnst hún sé svo mikilvæg í uppbyggingastarfi Íslands.  Við þurfum að vera rödd þjóðarinnar, tæki til þess að koma sjónarmiðum almennings á framfæri og bera hag hins almenna borgara fyrir brjósti.  Einangraður þinghópur getur aldrei náð því takmarki án samstarf við stjórn og félagsfundi.  Því viljum við meiri valdreifingu í hreyfingunni ásamt virkum umræðum um málefni líðandi stundar.

Til þess að svo megi verða þá þarf að efla lýðræðisleg vinnubrögð í Borgarahreyfingunni þannig að fólk sem þar starfar finni að verið sé að koma fram fyrir þeirra hönd.

Jón Kristófer Arnarson, 5.9.2009 kl. 09:19

18 Smámynd: Ásthildur Jónsdóttir

Ég skil ekki af hverju Lísu er svona mikið í mun að þessi hópur víki.  Þetta eru einstaklingar sem bjóða sig fram til stjórnar með ákveðin sjónarmið sameiginleg.

Öllum sem vilja starfa í stjórn er frjálst að gefa kost á sér og kynna sínar áherslur.  Á landsfundi verður svo kosið um einstaklinga og lýðræðisleg niðurstaða ræður framhaldinu.  Er það ekki akkúrat þannig sem Borgarahreyfingin ætlaði að vinna? 

Ásthildur Jónsdóttir, 5.9.2009 kl. 10:23

19 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Málið er ekki flókið. Mér finnst að fólkið sem lét hvað hæst í að níða skóinn af þingmönnunum eigi ekki heima í stjórn sem samkvæmt ókynntu og ósamþykktu skipuriti á að vera "yfirmaður" þingflokksins.

Er flókið að skilja þetta?

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 5.9.2009 kl. 11:46

20 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Já Lísa.  Ég skil ekki þessa athugasemd.  Hvað áttu við, hvaða yfirmann þingflokks ertu að tala um og hvaða skipurit?  Er það Birgitta sem þú ert að tala um og þá í hvaða samhengi?  Því miður þá fatta ég þetta ekki.

Er Perlu hópurinn með eitthvað ókynnt og ósamþykkt skipurit?  Ef svo er þá hlýtur það að koma fram fyrr eða síðar, en ég hef í sjálfu sér ekki stórar áhyggjur af því.

Jón Kristófer Arnarson, 5.9.2009 kl. 12:02

21 Smámynd: Ásthildur Jónsdóttir

Það er ekki flókið að skilja að þetta framboð fari í taugarnar á þér Lísa.  Það sem vefst fyrir mér er þessi ákafi þinn í að hópurinn víki.

Ef þú hefur rétt fyrir þér og það ríkir almenn gleði hjá flokksmönnum með skipulags- og samskiptaleysið innan hreyfingarinnar þá kemur það einfaldlega í ljós á landsfundi.   Er það ekki bara hið besta mál?

Ásthildur Jónsdóttir, 5.9.2009 kl. 12:44

22 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Almáttugur. Hér í þessum pistli er linkur á skjal sem heitir framtíðarsýn. Í þessu skjali má finna kynningu. Í þessari kynningu er skipurit. Skipuritið er sett upp á þann hátt að stjórning hefur bein samskipti við grasrót og vinnur fyrir hana. Þinghópur hefur síðan samskipti við stjórn og er síðan rödd hennar/grasrótar á þingi. Flestir mundu sjá þetta þannig að þingflokkurinn er sumsé undir stjórn. Skilurðu núna athugasemdina Jón? Ég var að tala um að stjórnin væri yfirmaður þingflokksins - ekki Birgitta.

Það hlýtur að vera mikilvægt að traust ríki á milli stjórnar og þinghóps og góð samvinna þar á milli - ekki satt. Hvernig geta núverandi þingmenn starfað með og treyst fólki (ekki hópnum í heild) sem hefur svoleiðis rakkað þá niður úr öllu veldi? Opinberlega og á bloggi? Það fer í taugarnar á mér (og fleirum) að það sé ekkert hugsað um hvað þeir hafi þurft að líða vegna nokkurra einstaklinga grasrótar og  fyrri/fráfarandi stjórnar sem nú vilja komast í stjórn. Haldið þið að þetta hafi verið auðvelt? Brjáluð vinna á þingi meðan þeirra eigin stjórn og samflokksmenn úða úr sér reiði og skömmum? Vilja að þeir víki, biðjist afsökunar og guð veit hvað.

Ásthildur - ég talaði um að "fólkið sem......" ekki hópurinn. Það er mikið sómafólk þarna innanum og samanvið.

Þetta eru kannski lýðræðisleg vinnubrögð en virðast ekki til þess fallin að sem best samstaða náist þarna innandyra og leyfi hreyfingunni að blómstra.

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 5.9.2009 kl. 13:28

23 Smámynd: Lísa Björk Ingólfsdóttir

Svo að lokum legg ég til að þið lesið færsluna hans Guðbjarnar inni hjá Lillo. Kannist kannski flest við hann ekki satt. Það sem fer líka í taugarnar á mér er hvað frambjóðendur þykjast lítið skilja og lítið vita.

Haldið þið virkilega að allir sem koma með komment og fyrirspurnir séu ignorant hálfvitar?

Lísa Björk Ingólfsdóttir, 5.9.2009 kl. 18:15

24 Smámynd: Ingifríður Ragna Skúladóttir

Nei, ekki allir!

Ingifríður Ragna Skúladóttir, 11.9.2009 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband